Reykjarmökkur yfir Los Angeles

AP

Þykkur reykjarmökkur liggur yfir Los Angeles í Kaliforníu vegna skógarelda sem hafa geisað þar síðan á fimmtudag. Tæplega 30 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og rúmlega 800 heimili hafa brunnið, húsvagnar, íbúðir og einbýlishús.

Enginn dauðsfölll hafa orðið af völdum eldanna svo vitað sé en lögregla hefur farið með leitarhunda á húsvagnasvæði sem urðu eldinum að bráð. Rúmlega áttatíu ferkílómetrar lands hafa brunnið.

Íbúar í Orange- og Riverside-sýslum hafa orðið verst úti. Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, lýsti í gær yfir neyðarástandi í þremur sýslum ríkisins, Los Angeles, Orange og Santa Barbara.

Eldarnir hafa verið mestir í Orange-sýslu en þar hafa hundruð húsa brunnið á rúmlega 40 ferkílómetra svæði. Á þriðja tug þúsunda manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín þar.

Slökkvistarf hefur gengið illa vegna hlýrra og þurra vinda en heldur hefur dregið úr vindstyrk og vindáttin snúist. Slökkviliðsmenn binda því vonir við að þeir nái fljótlega tökum á eldunum.

Skógareldar eru tíðir í Kaliforníu en síðustu áratugi hefur ástandið ekki verið jafnslæmt og nú.

AP
mbl.is

Bloggað um fréttina