Ríflegir bónusar

Höfuðstöðvar fyrirtækisins Peer Bearing í Waukegan, 65 km norður af ...
Höfuðstöðvar fyrirtækisins Peer Bearing í Waukegan, 65 km norður af Chicago.

Tár runnu niður kinnar nokkurra starfsmanna fyrirtækisins Peer Bearing Co þegar þeir opnuðu launaumslögin um mánaðamótin. Ólíkt svo mörgum sem eiga um sárt að binda þessa dagana hafði fólkið ríka ástæðu til að gleðjast.

Meðal þeirra var Dave Tiderman sem velti því fyrir sér hvort um prentvillu væri að ræða þegar hann horfði á 35.000 dala aukagreiðslu með mánaðarlaununum. 

Kollegi hans, Jose Rojas, trúði ekki eigin augum þegar hann sá 10.000 dala aukagreiðslu sér til handa.

„Þetta getur ekki verið rétt,“ sagði hann þá furðu lostinn. 

Aukagreiðslurnar má rekja til þess að Spungen-fjölskyldan, sem svo er kölluð, vildi þakka starfsmönnum fyrirtækisins, sem staðsett er í Waukegan, um 65 kílómetra, norður af Chicago, fyrir framlag þeirra við þau tímamót þegar fyrirtækið var selt nýjum aðilum. 

Þessar þakkargreiðslur þykja afar rausnarlegar á bandarískan mælikvarða, en alls var 6,6 milljónum dala úthlutað til um 230 starfsmanna fyrirtækisins og var farið eftir starfsaldri við úthlutunina.

„Þau komu fram við okkur eins og fjarskylda ættingja,“ sagði Maria Dima, sem starfar hjá Peer Bearing ásamt eiginmanni sínum.

„Við unnum í happdrættinu.“

Sænskt fyrirtæki tók nýlega yfir Peer Bearing, sem veltir um 100 milljónum dala á ári, og að sögn Danny Spungen, barnabarn stofnanda fyrirtækisins, sem stofnað var 1941, var það samdóma álit fjölskyldunnar að launa skyldi starfsfólkinu fyrir vel unnin störf.

mbl.is

Bloggað um fréttina