Gífurlegt fjölmenni í Washington

Gífurlegt fjölmenni hefur safnast saman á svæðinu á milli Washington minnismerkisins og bandaríska þinghússins í Washington, en fólkið hyggst fylgjast með því þegar Barack Obama sver embættiseið sem forseti Bandaríkjanna. Hægt er að fylgjast með sjónvarpsútsendingu RÚV frá athöfninni á mbl.is.

AP-fréttastofan greinir frá því að menn eigi erfitt með að fóta sig fyrir fólki í borginni. Neðanjarðarlestir sem og gagnstéttir eru þéttsetnar fólki.

Að sögn samgönguyfirvalda í borginni hafa um 207.000 manns ferðast með samgöngukerfi borgarinnar frá því kl. 7 í morgun að staðartíma (kl. 12 að íslenskum). Langar raðir hafa myndast fyrir framan neðanjarðarlestarstöðvar. Þá eru flest bílastæði full og sumum hefur verið lokað.

Þá hafa þúsundir safnast saman við Pennsylvania Avenue, þar sem Hvíta húsið stendur, en þar mun skrúðgangan ferðast.

Aldrei í sögu Bandaríkjanna hefur öryggisgæslan í kringum athöfnina verið jafn mikil. Um 40.000 manns eru annað hvort á svæðinu eða í viðbragðsstöðu.

Sjálf athöfnin fer fram kl. 12 að staðartíma (kl. 17 að íslenskum).

mbl.is

Bloggað um fréttina