Bush-skórinn fjarlægður

Minnismerkið um skókastið fræga hefur verið fjarlægt.
Minnismerkið um skókastið fræga hefur verið fjarlægt. Reuters

Minnismerki um þann atburð þegar íraskur blaðamaður grýtti skóm sínum að George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, var fjarlægt daginn eftir að það var sett upp, að beiðni íraskra stjórnvalda.

Listamaðurinn Laith al-Amiri á heiðurinn að baki verkinu sem hann gerði í virðingarskyni við blaðamanninn, Muntadhir al-Zaidi.

Varð al-Zaidi hetja víða í múslímaheiminum eftir tiltækið, en í íslamskri menningu þykir það gríðarleg óvirðing að kasta skó sínum í annan mann.

Bush-skórinn, sem svo má kalla, er úr trefjagleri og hjúpaður kopar.

Hann kostaði um 5.000 Bandaríkjadali og naut al-Amiri stuðnings barna á munaðarleysingjahæli við smíðina.

Faten Abdulqader al-Naseri, stjórnandi munaðarleysingjahælisins, sem er staðsett í bænum Tikrit, var stoltur af framlagi barnanna.

„Þessi munaðarlausu börn sem hjálpuðu til við smíðina voru fórnarlömb stríðsins hans Bush. Minnismerkið er gjöf til næstu kynslóðar til að minna á hetjudáð blaðamannsins.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina