Ákærður fyrir kynferðisbrot á Fésbók

Chris Jackson

Átján ára bandarískur skólapiltur hefur verið ákærður fyrir að hafa villt á sér heimildir á Fésbók með því að hafa þóst vera stúlka og hafa gabbað 31 skólabróður hið minnsta til að senda sér nektarmyndir af sér og reynt að kúga þá til kynferðisathafna.

Var Anthony Stancl ákærður í gær fyrir að táldraga börn en hann er einnig ákærður fyrir sprengjuhótun. Er ákæran í fimm liðum. Lögfræðingur Stancl segir að hann muni neita sekt í málinu og reyna að ná sátt. 

Stancl var yfirheyrður í nóvember 2007 vegna sprengjuhótana sem hann var ásakaður um að hafa sent kennurum og skrifaði um á veggi salernis í skóla sínum, New Berlin Eisenhower Middle and High School. 

Samkvæmt ákærunni á Stancl að hafa haft samband við samnemendur á Fésbók það sama ár og þóttist hann heita Kayla í sumum tilvikum en Emily í öðrum. Segja piltarnir að þeir hafi verið tældir til þess að senda stúlkunni sem þeir kynntust á Fésbók nektarmyndir af sér eða myndbönd.  

Kennsl hafa verið borin á 31 pilt sem sendi Stancl slíkar myndir og yfir helmingur þeirra segir að stúlkan sem þeir hafi kynnst hafi reynt að fá þá til að hitta karlkynsvin og heimila honum að eiga kynmök við þá.

Var þeim sagt að ef þeir gerðu ekki það sem hún bað um þá myndi hún senda nektarmyndirnar eða myndböndin til vina þeirra og myndirnar yrðu síðan vistaðar á netinu. Í einhverjum tilvikum tókst Stancl ætlunarverk sitt samkvæmt ákærunni. Alls fundust um 300 nektarmyndir af ungum piltum í tölvu Stancl en þeir yngstu eru 15 ára gamlir.

Ef Stancl verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 300 ára fangelsi. 

mbl.is