Sears turninn heyrir brátt sögunni til

Sears turninn í Chicaco mun brátt heyra sögunni til.
Sears turninn í Chicaco mun brátt heyra sögunni til. AP

Hæsta bygging Bandaríkjanna, Sears Tower í Chicago sem er 110 hæðir, mun brátt hljóta nýtt nafn. Byggingin mun framtíðinni heita Willis Tower í höfuðið á tryggingarfyrirtækinu Willis Group Holdings.

Fyrirtækið hyggst leigja út margar hæðir í turninum sem er 442 metrar á hæð. Nafninu verður breytt með formlegum hætti næsta sumar.

Sears, sem var eitt sinn stærsta smásölufyrirtæki Bandaríkjanna, var með höfuðstöðvar sínar í turninum. Það var lokið við að reisa hann árið 1973, en þá var byggingin sú hæsta í heiminum. Sears flutti síðan starfsemi sína annað snemma á tíunda áratugnum.

Sears hefur orðið undir í samkeppninni við fyrirtæki á borð við Wal-Mart og Home Depot.

Í dag er turninn fimmta hæsta bygging í heiminum. Í dag er Taipei 101 byggingin í höfuðborg Taívans sú hæsta. Hún er 509 metrar.

mbl.is