Fjölmiðlasirkus í Austurríki

Mótmælendur með blóðugar dúkkur voru á meðal hundruða blaðamanna í dag, þegar hinn hægláti bær Sankt Poelten í Austurríki varð að nýjasta sögusviðinu í máli Josefs Fritzl. Hann er nú fyrir rétti í bænum vegna ákæru fyrir morð, nauðgun, sifjaspell, þvinganir og frelsissviptingu.

Fjölmiðlafólk var mætt mjög snemma fyrir utan dómshúsið en mótmælendur bættust við eftir því sem nær dró komu Fritzl. Maður klæddur í rannsóknarstofuslopp með tólf dúkkur og gerviblóð í munnvikunum leiddi unga konu í kjól um mannfjöldann í hljóði og lék undir tónlist eftir Wagner. „Þetta er allt ein Hollywood uppfærsla. Fjölmiðlarnir þurfa að tryggja sér áhorf og fórnarlömb færa þeim áhorf,“ sagði leikstjórinn Hubsi Kramar við AFP fréttastofuna. Kramar komst nýlega í blöðin með ögrandi leikriti sínu sem kallaðist „Pension Fritzl“.

Blóðslóðin eftir dúkkurnar var vandlega mynduð af sjónvarpstökumönnum og ljósmyndurum, sem ólmir vildu ná myndum til að sýna með fréttum dagsins af réttarhöldunum, sem fóru mestmegnis fram fyrir luktum dyrum. Herbert Szlezak mótmælandi hélt uppi viðarkrossi sem dúkkur héngu í. „Þetta eru börn sem ekki njóta verndar samfélagsins.“ sagði hann. „Austurríki er land barnaníðinga,“ sagði Szlezak. Hann var síðar leiddur í burtu af lögreglu eftir að hafa reynt að komast inn í dómshúsið. Þetta kallaði fram háreysti frá öðrum mótmælendum.

Einnig var á svæðinu fámennur hópur frá Þjóðarflokknum í Austurríki. Þau héldu á borða sem á var letrað „Verndum börnin okkar“. Annar hópur sem kallaði sig Andspyrnu fyrir friði dreifði merkjum sem á stóð „skammastu þín, Austurríki.“

Forseti dómsins í máli Fritzl, Andrea Humer, minnti á það við upphaf réttarhaldanna í dag að aðeins einn maður færi fyrir rétti. Ekki bæjarfélagið Amstetten, héraðið eða landið allt.

Josef Fritzl leiddur inn í dómshúsið í morgun.
Josef Fritzl leiddur inn í dómshúsið í morgun. Ho
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert