Fritzl hlustar á vitnisburð dóttur sinnar

Josef Fritzl reyndi aftur að hylja andlit sitt þegar réttarhöldin yfir honum héldu áfram í dag. „Hann skammast sín einfaldlega,“ sagði lögfræðingur hans, Rudolf Mayer við austurríska sjónvarpsmenn þegar hann var spurður út í tilraunir sakborningsins til að fela sig á bak við bláa skjalamöppu. Austurrískir fjölmiðlar hafa hamast á Fritzl síðan réttarhöldin hófust. „Þetta er andlit illskunnar,“ sagði frétt Kleine Zeitung ásamt mynd af huldu andliti Fritzl. „Heigull allt til enda,“ sagði fyrirsögn Kronen Zeitung götublaðsins. „Fritzl vorkennir bara sjálfum sér,“ sagði blaðið Kurier.

Í dag er verið að yfirheyra hinn 73 ára Josef Fritzl um innihald vitnisburðar dóttur hans, Elisabeth Fritzl, sem hann lokaði niðri í kjallara og nauðgaði reglulega í 24 ár. Vitnisburðurinn er á myndbandsupptöku, til að hlífa Elisabeth við því að bera vitni í návist föður síns í réttarsalnum.

Lögfræðingur hans sagði hins vegar í morgun að Fritzl hafi þegar sagt allt sem hann hafi að segja, ekki væri því líklegt að hann bæti miklu við. Síðar sagði hann hins vegar að skjólstæðingur sinn væri samvinnuþýður og hefði svarað öllum spurningum réttarins. Engin smáatriði um innihald yfirheyrslunnar hafa hins vegar lekið út.

Vitnisburður Elisabethar er samtals ellefu klukkustundir og er búist við því að hann verði allur spilaður í mörgum hlutum í réttarhöldunum í þessari viku. „Dómararnir þrír hafa ekki séð hann enn og þeir, eins og kviðdómendur, þurfa að fá fullkomna mynd af fórnarlambinu,“ sagði talsmaður dómstólsins í Sankt Poelten, Franz Cutka.

Aðrir fjölskyldumeðlimir, systkini og börn Elistabethar og móðir hennar Rosemarie, hafa öll nýtt sér rétt sinn til þess að bera ekki vitni. Móðir hennar heldur því enn fram að hún hafi aldrei vitað hvað Josef aðhafðist í kjallaranum.

Önnur vitni í málinu eru fjórir sérfræðingar, geðlæknir, tæknilegur sérfræðingur og rafmagnsverkfræðingur sem mun vitna um hina flóknu lása sem Fritzl setti á hurðirnar í kjallaranum.

Verjandi Fritzl hefur haldið því fram að hann hafi aðeins viljað eiga aðra fjölskyldu, til hliðar við þá sem hann átti með eiginkonu sinni, Rosemarie.

Búist er við því að dómur verði kveðinn upp á föstudag, en það gæti þó gerst degi fyrr ef réttarhöldin ganga hratt fyrir sig. „Hann er ekkert sérstök persóna, ef hann stæði hér eins og hver annar mynduð þið líklega ekkert taka eftir honum. Hann er mjög kurteis,“ sagði Erich Huber-Guensthofer, aðstoðarforstjóri fangelsisins í Sankt Poelten við blaðamenn.

Fritzl leiddur inn í réttarsalinn, þar sem hann þarf m.a. …
Fritzl leiddur inn í réttarsalinn, þar sem hann þarf m.a. að hlusta á ellefu klukkustunda langan vitnisburð fórnarlambsins, dóttur sinnar, sem hann misnotaði í áratugi. Reuters
Josef Fritzl reynir að hylja andlit sitt og er kallaður …
Josef Fritzl reynir að hylja andlit sitt og er kallaður heigull í austurrískum dagblöðum fyrir vikið. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert