Elisabeth Fritzl á hrakhólum

Josef Fritzl er hann mætti í dómssalinn í gær.
Josef Fritzl er hann mætti í dómssalinn í gær. AP

Elisabeth Fritzl er nú sögð ætla að selja heimili, sem hún hefur búið sér og sex börnum sínum, eftir að staðsetning þess var opinberuð í fjölmiðlum. Læknar og yfirvöld í Austurríki hafa ítrekað beðið fjölmiðla og almenning um að virða einkalíf Elisabeth og barna hennar og veita þeim þannig svigrúm til að byggja sé nýtt líf. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Faðir Elisabeth Josef Fritzl var í gær fundinn sekur um fundinn sekur um morð, nauðgun, sifjaspell og að hneppa dóttur sína í ánauð en hann læsti dóttur sína ofan í kjallara í tæpan aldarfjórðung og eignaðist með henni sjö börn. Var hann dæmdur til ævilangrar vistunar í fangelsi eða á stofnun en ekki liggur fyrir hvernig vistun hans verður háttað.

„Ég hef aldrei komið nálægt þorpinu þar sem hún býr en svæðið er morandi í ljósmyndurum,” segir austurrískur blaðamaður í viðtali við Sky. „Það lítur út fyrir að hún verði hundelt hvert sem hún fer. Það er sorglegt og mikil vonbrigði.”

Bojan Pancevski, höfundur væntanlegrar bókar um Fritzl málið, tekur í sama streng og segir: „Það mun því miður verða mjög erfitt fyrir Elisabeth að fara huldu höfði. Það hljóta að vakna grunsemdir hjá öllum sem verða varir við að kona með sex börn flytji í nágrennið"  Sérfræðingar sem hafa haft Elisabeth og börn hennar til meðhöndlunar segja að verði birtar myndir af þeim muni það spilla mjög möguleikum þeirra á að ná sér á strik og lifa sem eðlilegustu lífi.

Elisabeth var viðstödd réttarhöldin yfir föður hennar en talið er að læknar hennar hafi ráðlagt henni a geraþað sem mikilvægan þátt í bataferli hennar. Eftir að greint var frá því að hún hefði verið í réttarsalnum sagði geðlæknirinn Dr Eva Muenker Kramer. „Elisabeth mun þurfa aðskilja á milli fortíðar og framtíðar til að ná bata. Þetta var enginn endapunktur en skref í átt að honum.”

mbl.is