Ungur hakkari fær vinnu við ráðgjöf

Nýsjálenski hakkarinn Owen Thor Walker í réttarsal
Nýsjálenski hakkarinn Owen Thor Walker í réttarsal

Nýsjálenskur unglingspiltur sem hefur viðurkennt að vera hakkari og taka þátt í alþjóðlegum netglæpahring hefur verið ráðinn til starfa sem ráðgjafi hjá fjarskiptafyrirtækinu TelstraClear í Nýja Sjálandi.

Talsmenn fyrirtækisins segja að pilturinn, Owen Thor Walker, gefi nú viðskiptavinum ráðleggingar um hvernig hægt er að forðast tölvuglæpi. Hann var áður lykilmaður í klíku hakkara sem braust inn í yfir milljón tölvur um allan heim og var rannsakaður af yfirvöldum í Bandaríkjunum, Evrópu og á Nýja Sjálandi þegar hann var aðeins 16 ára gamall og enn í grunnskóla.

Walker tekur nú þátt í auglýsingaherferð gegn tölvuglæpum og hefur auk þess flutt fjölda fyrirlestra til að leiða bæði starfsmönnum og viðskiptavinum í ljós hætturnar sem steðja að fyrirtækjunum í gegnum tölvur. Hann játaði í fyrra sök að sex ákærum um glæpsamlega hegðun á netinu og að vera lykilmaður í hakkaraklíku sem talið er að hafi rænt a.m.k. 20 milljónum bandaríkjadala af lokuðum bankareikningum. Sjálfur rændi hann ekki peningunum en fékk hinsvegar greiddar háar fjárhæðir fyrir að þróa hugbúnað sem gaf aðgang að heimabönkum og kreditkortum.

Hann var hinsvegar ekki látinn sæta refsingu þar sem hann reyndist vera greindur með einhverfu. Þeir sem rannsökuðu þátt Walker í glæpunum sögðu vírusana sem hann hannaði vera með þeim allra flóknustu sem þeir hefðu séð.

mbl.is

Bloggað um fréttina