Barn sem lést í Texas var frá Mexíkó

Tveggja ára gamalt barn, sem lést af völdum svínaflensu í Houston í Texas í Bandaríkjunum, var frá Mexíkó. Fjölskylda barnsins var í heimsókn hjá ættingjum í bænum Bronsville við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna þegar það veiktist.

Að sögn David Persse, borgarlæknis í Houston, veiktist barnið skyndilega og var flutt á sjúkrahús í Bronsville 13. apríl og daginn eftir á sjúkrahús í Houston þar sem það lést. Ættingjar barnsins hafa hins vegar ekki veikst af inflúensunni. 

Þetta er fyrsta dauðsfallið af völdum svínaflensu sem vitað er um utan Mexíkó.

mbl.is

Bloggað um fréttina