Hafnar lokun Guantanamo

Ein mynda Davíðs Loga Sigurðssonar frá Guantanamo-fangabúðunum
Ein mynda Davíðs Loga Sigurðssonar frá Guantanamo-fangabúðunum mbl.is/Davíð Logi

Öldungadeild Bandaríkjaþings hafnaði, með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, áætlun um flutning fanga úr Guantanamo flóa fangabúðunum. Þingdeildin neitaði enn fremur að samþykkja 80 milljón dollara fjárbeiðni til að loka búðunum.

90 öldungadeildaþingmenn höfnuðu áætluninni um flutning fanganna 240 sem að enn eru í fangabúðum bandarískra stjórnvalda við Guantanamo flóa á Kúbu, en sex voru henni fylgjandi. Er þetta talið áfall fyrir Barack Obamas Bandaríkjaforseta, sem hefur lýst því yfir að hann vilji að búið verði að loka fangabúðunum í janúar á næsta ári. 

Robert Mueller, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), sagði þingheimi hins vegar að fangarnir gætu tekið þátt í hryðjuverkum í Bandaríkjunum verði þeim sleppt lausum. 

„Við höfum áhyggjur af einstaklingum sem kunna að styðja hryðjuverkaaðgerðir í Bandaríkjunum og þær áhyggjur tengjast fjármögnun hryðjuverka,“ sagði Mueller við þingnefnd.

BBC segir bandarískan alríkisdómara þá hafa sagt bandarísk stjórnvöld geta haldið föngum áfram um óákveðin tíma í Guantanamo fangabúðunum án þess að ákæra sé birt.

Þingmenn bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins fullyrða að gera þurfi ítarlegri áætlun áður en Guantanamo fangabúðunum verður lokað. 

Enn eru 240 fangar, sem grunaðir eru um hryðjuverk í búðunum og er Obama harður á því að fangabúðunum skuli lokað fyrir árslok. Fullyrða starfsmenn bandarísku stjórnsýslunnar að svo verði. Þingmenn kveðast hins vegar þurfa að sannfærast frekar um áætlun forsetans sem gerir m.a. ráð fyrir  flutningi fanga yfir til Bandaríkjanna. 

„Bandaríska þjóðin vill ekki að þessir menn gangi um götur bandarískra borga,“ sagði John Thune, einn öldungadeildarþingmanna repúblikana. „Bandarískur almenningur vill ekki heldur að þessum föngum sé haldið í herstöðum eða alríkisfangelsum hér heima.“

Mitch McConnell leiðtogi repúblikana sagði forsetann þurfa trúverðuga áætlun um lokun fangabúðanna.  „Þegar hún er komin, þá munum við hugleiða að loka Guantanamo, enn ekki sekúndu fyrr,“ sagði McConnell.

Leiðtogar demókrata í þinginu segjast hins vegar munu endurskoða synjun fjárbeiðninnar þegar ítarlegri áætlun liggi fyrir.

Öldungadeild Bandaríkjanna er ekki á því að loka Guantanamo fangabúðunum …
Öldungadeild Bandaríkjanna er ekki á því að loka Guantanamo fangabúðunum strax. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert