Elisabeth Fritzl finnur ástina

Kveðja frá Elizabeth Fritzl og börnum hennar til austurrísku þjóðarinnar.
Kveðja frá Elizabeth Fritzl og börnum hennar til austurrísku þjóðarinnar. Reuters

Staðhæft er á austurríska netmiðlinum oe24.at að Elisabeth Fritzl, sem haldið var í jarðhýsi af föður sínum í 24 ár hafi nú fundið ástina. Þetta kemur fram á fréttavefnum Nettavisen.

Faðir hennar Josef Fritzl var fyrr á þessu ári fundinn sekur um að halda henni nauðugri í jarðhýsinu þar sem hann nauðgaði henni reglulega og gat henni sjö börn.

Þrettán mánuðir eru frá því Elisabeth og þrjú börn hennar losnuðu úr prísundinni undir fjölskylduheimilinu í Amstetten en Josef hafði alið þrjú af börnum þeirra upp á efri hæð hússins ásamt eiginkonu sinni.

Á síðustu mánuðum er Elisabeth sögð hafa tekið ótrúlegum breytingum. Hún mun hafa fengið nýjar tennur og látið lita hár sitt ljóst. Þá er hún sögð lífsglöð kona sem sest hefur að í Perg í nágrenni Amstatten. Hún er hætt í sálfræði meðferð, hefur tekið bílpróf og er nú sögð eiga í ástarsambandi við mann sem upphaflega var lífvörður hennar.

Maðurinn er sagður heita Thomas og vera töluvert eldri en hún. Samstarfsmenn hans hjá fyrirtækinu AST Security segja að fljótt hafi myndast sérstök tengsl á milli þeirra er hann gætti hennar og barna hennar þar sem þau voru á geðsjúkrahúsi fyrstu mánuðina eftir að þau losnuðu úr jarðhýsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina