Fjölmenn mótmæli yfir bílastæði

Þúsundir strangtrúaðra gyðinga tóku þátt í mótmælunum.
Þúsundir strangtrúaðra gyðinga tóku þátt í mótmælunum. Reuters

Átök brutust út milli þúsunda strangtrúaðra gyðinga og lögreglu í Jerúsalem í dag þegar þeir fyrrnefndu mótmæltu opnun bílastæðahúss á hvíldardegi þeirra, sabbat.

Mótmælendurnir köstuðu steinum og tómum flöskum í átt að lögreglu um leið og þeir hrópuðu „Sabbat". Einn lögreglumaður slasaðist lítilsháttar í átökunum.

Mótmælin fóru fram í grennd við Mea Shearim, hverfi strangtrúaðra gyðinga sem er í um hálfs kílómetra fjarlægð frá ráðshúsinu þar sem bílastæðahúsið var opnað í kjallaranum. Gyðingarnir héldu fylktu liði í átt að ráðhúsinu en hörfuðu aftur í átt að Mea Shearim þegar lögregla beitti vatnssprautum á þá. Engar fregnir eru um handtökur.

Skipuleggjandi mótmælanna, rabbíninn Yitzhak Tuvia Weiss, gerði tilraun til að þvinga borgarstjórann Nir Barkat til að aflýsa opnuninni á þessum hvíldardegi gyðinga.

Ráðhúsið er staðsett rétt hjá borgarmúrnum að gamla bænum í Jerúsalem, sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Gyðingarnir strangtrúuðu óttast að opnunin verði til þess að virðing fyrir hvíldardegi þeirra muni þverra. Sjálfir vinna þeir hvorki né aka bílum á hvíldardeginum og eru þekktir fyrir að henda grjóti í bíla sem aka í gegnum Mea Shearim hverfið á laugardögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina