Þotan brotnaði ekki í lofti

Brak úr farþegaþotu Air France.
Brak úr farþegaþotu Air France. Reuters

Airbus-farþegaþotan, sem fórst fyrir mánuði með 228 manns um borð, brotnaði ekki upp í lofti, heldur sundraðist er hún lenti í sjónum á miklum hraða. Kemur þetta fram í rannsóknarskýrslu franskra sérfræðinga, sem birt var í gær. Er um bráðabirgðaniðurstöðu að ræða en allt er enn á huldu um það hvað slysinu olli.

Air France-þotan hvarf af ratsjárskjánum 1. júní er hún var á leið frá Rio de Janeiro í Brasilíu til Parísar. Komst enginn lífs af.

„Þotan brotnaði ekki upp á flugi,“ sagði Alain Bouillard, talsmaður slysarannsóknastofnunarinnar BEA. „Flugvélin virðist hafa lent í sjónum í flugstöðu en á mjög hraðri niðurleið.“ Sagði hann, að hraðamælarnir og hugsanleg bilun í þeim kunni að hafa komið við sögu, verið einn þáttur af mörgum, en þeir hefðu þó ekki valdið slysinu.

Bouillard sagði, að flugstjórnarmiðstöðin í Dakar í Senegal hefði átt að taka við af brasilísku flugstjórninni en það hefði þó ekki gerst. Sagði hann, að flugstjórar Air France-þotunnar hefðu þrisvar sinnum reynt að tengjast tölvukerfinu í Dakar en alltaf án árangurs, augljóslega vegna þess, að Dakar hafði aldrei tekið við flugáætluninni.

„Það er eitthvað undarlegt við það,“ sagði Bouillard og bætti við, að verið væri að kanna hvernig á því stæði, að sex klukkustundir liðu frá því þotan hvarf af ratsjám þar til lýst var yfir neyðarástandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert