Norsk ferja skall á bryggju

Mynd: Morten Abel - Aftenposten

Tíu voru fluttir á sjúkrahús eftir að farþegaferja með um 100 manns innanborðs rakst á bryggju á Nesodden í Óslóarfirði í dag. Enginn er talinn alvarlega slasaður. Ferjan var að leggja að og var á töluverðri ferð þegar hún rakst á bryggjuna. Áhöfnin fullyrðir að drepist hafi á vélinni þegar setja átti í afturábakgír.

Slysið varð um klukkan 2 í dag að norskum tíma. Ferjan Smørbukk, sem er ein elsta ferja sem siglir milli Nesodden og Óslóar, var að leggja að bryggju á Nesodden þegar drapst á vélinni. Ekki gafst tóm til að vara farþegana við áður en ferjan skall á bryggjunni. Einhverjir farþegar köstuðust upp á bryggju en enginn fór í sjóinn.

Að sögn farþega gaus upp rauk í ferjunni um það leyti sem hún skall á bryggjunni en enginn eldur kom upp.

Morten Abel, ritstjóri Aftenposten sem var um borð í ferjunni segir í samtali við blað sitt að mikil skelfing hafi gripið um sig meðal farþega. Hjálparlið kom strax á staðinn og gekk hratt og vel fyrir sig að flytja fólkið í land.

Frétt Aftenposten

Frétt NRK

Frétt TV2

Mynd: NRK
Mynd: NRK
mbl.is

Bloggað um fréttina