Ólíklegur hryðjuverkamaður

Lögreglumynd af Daniel Patrick Boyd sem sakaður er um að …
Lögreglumynd af Daniel Patrick Boyd sem sakaður er um að vera leiðtogi hryðjuverkahóps. Reuters

Bandarísk yfirvöld hafa handtekið Daniel Boyd, 39 ára heimilisföður frá Norður Karólínu og segja hann grunaðan um hryðjuverkastarfsemi. Samkvæmt AP fréttastofunni kemur þetta fjölskyldu og nágrönnum Boyd í opna skjöldu.

Boyd mun samkvæmt ákæruskjalinu hafa eytt þremur árum í að ferðast um miðausturlönd þar sem hann á aða hafa keypt vopn á laun og þjálfað hóp manna til þess að stunda mannrán og líkamsmeiðingar erlendis.

Nágrannar Boyd í Willow Spring, úthverfi suður af Raleigh segjast eiga erfitt með að trúa því að þessi hjálpsami fjölskyldufaðir sé í raun hryðjuverkamaður.
„Ef hann er hryðjuverkamaður þá er hann vingjarnlegasti hryðjuverkamaður sem ég hef hitt. Ég held að hann sé saklaus," sagði Charles Casale einn af nágrönnum Boyd í Willow Spring. Casale sagðist nýlega hafa þegið góð ráð um plöntur og gróðursetningu matjurta frá Boyd.

Boyd var handtekinn ásamt sex öðrum, þar af voru tveir synir hans og hann sakaður um að hafa hlotið þjálfun í hryðjuverkastarfsemi í Pakistan og mun hann hafa fært þann lærdóm með sér heim til Norður Karólínu þar sem hann mun hafa safnað nýliðum sem voru viljugir til að láta lífið í heilögu stríði múslíma.


mbl.is

Bloggað um fréttina