Skikkaðir í tíu daga frí af AGS

Emil Boc, forsætisráðherra Rúmeníu glímir við gríðarlegan halla á fjárlögum …
Emil Boc, forsætisráðherra Rúmeníu glímir við gríðarlegan halla á fjárlögum ríkisins.

Stjórnvöld í Rúmeníu hafa skikkað opinbera starfsmenn til að taka sér tíu daga, launalaust leyfi. Þetta er gert til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs Rúmeníu en um 360 milljónir evra sparast í launagreiðslum eða sem nemur 65 milljörðum króna.

Áskilið er að leyfið verði tekið á tímabilinu september til nóvember næstkomandi. Það var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, AGS, sem m.a. setti Rúmenum þetta skilyrði fyrir útborgun annarrar greiðslu af tæplega 13 milljarða evra láni sjóðsins til Rúmena. Lánapakki rúmenska ríkisins hljóðar upp á 20 milljarða evra en aðrir lánveitendur eru Alþjóðabankinn og Evrópusambandið. AGS hafði þegar greitt út 5 milljarða evra af láninu, jafngildi rúmlega 900 milljarða króna en önnur útborgun upp á 1,9 milljarða evra, eða rúma 340 milljarða króna var háð fjölmörgum skilyrðum, þ.á.m. frítöku opinberra starfsmanna.

Vaxandi ólga er meðal opinberra starfsmanna í Rúmeníu en óljósar fregnir berast af harkalegum samdrætti í opinbera geiranum að kröfu AGS. Allt að 150 þúsund opinber störf eru sögð í hættu á næstu mánuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina