Átti 2 börn með ræningjanum

Jaycee Lee Dugard.
Jaycee Lee Dugard. Reuters

Bandarísk kona, sem var rænt fyrir 18 árum þegar hún var 11 ára, átti tvö börn með manninum sem rændi henni og dvaldi mestallan tímann sem hún var í haldi í huldum bakgarði.

Konan heitir Jaycee Lee Dugard og er 29 ára. Hún hvarf 10. júní 1991 eftir að hún fór frá heimili sínu við suðurhluta Tahoe vatns í Kalíforníu.  Stjúpfaðir hennar, Carl Probyn, fylgdist með henni þar sem hann stóð á bílastæðinu og sá hvar grár skutbíll nam staðar við hlið hennar. Einhver greip Jaycee og dró hana inn í bílinn. Þrátt fyrir að lögreglan brygðist hratt við og faðirinn hefði verið vitni fannst litla stúlkan ekki.

Dugard kom síðan í leitirnar síðastliðinn miðvikudag.  Lögreglan segir, að búið sé að sannreyna sögu konunnar. Hjón, Phillip og Nancy Garrido, voru handtekin í kjölfarið grunuð um að hafa rænt Dugard. Phillip Garrido er skráður kynferðisglæpamaður sem hefur afplánað dóma fyrir mannrán og nauðgun.

Lögregla í San Francisco hélt í kvöld blaðamannafund og sagði að falinn bakgarður hefði fundist á lóð Garridohjónanna í Antioch. Þar hefði Dugard verið haldið fanginni. Dugard eignaðist tvær dætur í prísundinni, sem nú eru 11 og 15 ára gamlar.

Lögreglan segir, að Garrido, sem er 58 ára, hafi haldið Dugard í einskonar þrælkun og falið hana í tjaldi, skúrum og útihúsum á lóðinni. Hvorki Dugard né dætur hennar hafa gengið í skóla og þær hafa aldrei farið til læknis.  Í garðinum voru rafleiðslur, kamar og útisturta líkt og á tjaldsvæði.

Málið upplýstist í vikunni þegar lögregla sá Garrido á lóð Kalíforníuháskóla þar sem hann var ásamt tveimur börnum að dreifa bæklingum með trúarlegu innihaldi. Þar sem Garrido má ekki umgangast börn vegna kynferðisbrotadómanna tilkynnti lögregla skilorðsfulltrúa Garridos um málið. Garrido var síðan boðaður á fund á lögreglustöð á miðvikudag.

Þegar Garrido kom á fundinn voru eiginkona hans, Dugard, sem hann kallaði raunar Alissu, og tvær litar stúlkur í för með honum.  Skilorðsfulltrúinn, sem hafði áður komið á heimili Garridos, hafði aldrei séð konuna og stúlkurnar fyrr og þótti málið hið grunsamlegasta. Hann bað lögreglu um að yfirheyra konuna og þá kom í ljós að hún var Jaycee Lee Dugard.

Mál þetta minnir á tvö mál, sem komið hafa upp í Austurríki á undanförnum árum. Árið 2006 slapp Natascha Kampusch úr klóm Wolfgangs Priklopils, sem hafði rænt henni 8 árum fyrr þegar hún var 10 ára.  Priklopil framdi í kjölfarið sjálfsmorð.

Þá var Josef Fritzl á þessu ári dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að halda dóttur sinni fanginni í gluggalausum kjallara í 24 ár þar sem hann nauðgaði henni ítrekað. Stúlkan eignaðist sjö börn með föður sínum.

Phillip Garrido hefur verið handtekinn grunaður um að hafa rænt ...
Phillip Garrido hefur verið handtekinn grunaður um að hafa rænt Jaycee Lee Dugard. Reuters
Nancy Garrido, eiginkona Phillip Garrido, er einnig í haldi lögreglu.
Nancy Garrido, eiginkona Phillip Garrido, er einnig í haldi lögreglu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina