Betri brjóstahaldara takk!

Vetur í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar
Vetur í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar BOB STRONG

Konur í sænska hernum krefjast þess nú að herinn sjái þeim fyrir bardagahæfum brjóstahöldum, þar sem íþróttabrjóstahaldararnir sem þær sjálfar kaupa, opnist of auðveldlega. 

 Karlkyns hermönnum er útvegaður sérstakur nærfatnaður en hinir rúmlega 500 sænsku kvenhermenn verða sjálfir að sjá um að kaupa brjósthöldin, þar sem ekki eru til nein slík sem ætluð eru til hernaðar samkvæmt Samtökum herkvaddra, sem er nokkurs konar stéttarfélag þeirra.

Talskona samtakanna gagnrýnir að í landi sem talið er frumkvöðull í jafnrétti kynjanna, sé kynjum mismunað á þennan hátt. Konur eigi að geta mætt til vinnu og átt von á því að fá fatnað sem sé bæði öruggur og viðeigandi.

Hún segir að þrátt fyrir konur hafi stundað herþjónustu í sænska hernum í rúm þrjátíu ár hafi þeim aldrei verið séð fyrir brjóstahöldum. 

En nú lítur út fyrir að breytinga sé von, því herinn vinnur að því að þróa brjóstahöld sem eiga að duga í hernaði. Von er á 800-1.000 nýjum konum til að gegna herskyldu á næsta ári og er búist við að brjósthöldin verði tilbúin seint á þessu ári eða á því næsta.

Konur í Svíþjóð hafa gegnt herskyldu frá árinu 1980 og telja nú um fjögur til fimm prósent sænska heraflans.

mbl.is

Bloggað um fréttina