Obama styður umsókn Chicago

Barack Obama
Barack Obama Reuters

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun koma til Kaupmannahafnar í næstu viku, að sögn fréttavefjar Berlingske Tidende. Tilgangur ferðarinnar mun vera að stuðla að því að Chicago fái að halda Ólympíuleikana árið 2016.

Alþjóða Ólympíunefndin mun þinga í Kaupmannahöfn í október. Þetta er haft eftir heimildarmanni í starfsliði Obama sem þekkir til ferðaáætlana forsetans. Heimildin hermir að forsetinn ætli að heimsækja Kaupmannahöfn 2. október í tengslum við fund nefndarinnar.

Bandaríkjaforseti verður því á staðnum þegar Chicago-borg kynnir umsókn sína um að halda Ólympíuleikana. Kynningin verður í Bella Center. Obama mun fara frá Kaupmannahöfn síðar þann sama dag.

Langt er síðan að Michelle Obama forsetafrú staðfesti að hún ætlaði til Kaupmannahafnar til að styðja við umsókn Chicago-borgar. Talsmaður Hvíta hússins sagði við blaðið Around the Rings að ekki sé búið að ákveða endanlega að Bandaríkjaforseti fari til Kaupmannahafnar vegna Ólympíuumsóknarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert