Obama styður umsókn Chicago

Barack Obama
Barack Obama Reuters

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun koma til Kaupmannahafnar í næstu viku, að sögn fréttavefjar Berlingske Tidende. Tilgangur ferðarinnar mun vera að stuðla að því að Chicago fái að halda Ólympíuleikana árið 2016.

Alþjóða Ólympíunefndin mun þinga í Kaupmannahöfn í október. Þetta er haft eftir heimildarmanni í starfsliði Obama sem þekkir til ferðaáætlana forsetans. Heimildin hermir að forsetinn ætli að heimsækja Kaupmannahöfn 2. október í tengslum við fund nefndarinnar.

Bandaríkjaforseti verður því á staðnum þegar Chicago-borg kynnir umsókn sína um að halda Ólympíuleikana. Kynningin verður í Bella Center. Obama mun fara frá Kaupmannahöfn síðar þann sama dag.

Langt er síðan að Michelle Obama forsetafrú staðfesti að hún ætlaði til Kaupmannahafnar til að styðja við umsókn Chicago-borgar. Talsmaður Hvíta hússins sagði við blaðið Around the Rings að ekki sé búið að ákveða endanlega að Bandaríkjaforseti fari til Kaupmannahafnar vegna Ólympíuumsóknarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina