ESB fagnar írsku jái

Atkvæði talin í Dublin í dag.
Atkvæði talin í Dublin í dag. Reuters

Svíar, sem fara með forsæti Evrópusambandsins þetta misserið, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er fagnað að Írar hafi samþykkt svonefndan Lissabon-sáttmála í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. „Þetta er góður dagur fyrir Evrópu," segir í yfirlýsingu Frá Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía.

Niðurstöður liggja raunar ekki fyrir í atkvæðagreiðslunni en fyrstu tölur sýndu að 65% Íra hefðu greitt atkvæði með sáttmálanum. Írar felldu Lissabon-sáttmálann í atkvæðagreiðslu á síðasta ári. 

Lissabon-sáttmálinn verður einskonar stjórnarskrá Evrópusambandsins og er honum m.a. ætlað að einfalda ákvarðanaferli. Allar aðildarþjóðir Evrópusambandsins, 27 að tölu, verða að staðfesta sáttmálann áður en hann tekur gildi. 24 hafa þegar gert það en auk Íra eiga Tékkar og Pólverjar það eftir. Þjóðþing síðarnefndu ríkjanna tveggja hafa hins vegar þegar samþykkt samninginn.

Þá eiga Álendingar eftir að greiða atkvæði um sáttmálann. Álandseyjar eru sjálfstjórnarsvæði en í ríkjasambandi með Finnlandi. Þarlendir stjórnmálamenn hafa hótað því að beita sér gegn sáttmálanum fallist finnsk stjórnvöld ekki á ýmsar kröfur Álendinga tengdar ESB-aðild Finna. Felli Álendingar sáttmálann gæti staða Finna innan Evrópusambandsins orðið býsna flókin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert