Ísraelar skrúfa fyrir vatnið

Íbúar á Vesturbakkanum sjást hér á mótmælafundi fyrr í þessum …
Íbúar á Vesturbakkanum sjást hér á mótmælafundi fyrr í þessum mánuði, þar sem þeir kröfðust þess að Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínu, hætti að beygja sig undir bandarískan þrýsting og gerði meira til að hjálpa þjóð sinni. Reuters

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að Ísraelar komi í veg fyrir að Palestínumenn hafi aðgang að hreinu vatni. Fram kemur í skýrslu samtakanna að Palestínumönnum á Vesturbakkanum sé mismunað og aðgengi þeirra að vatni sé mjög takmarkað. Á Gaza sé neyðarástand sé að skapast, t.d. hvað varðar frárennsli og skolp.

Ísraelar segja hins vegar að skýrslan sé gölluð og að Palestínumenn fái meira vatn heldur en var samþykkt í friðarsamkomulaginu frá tíunda áratug síðustu aldar.

Í skýrslunni, sem er 112 blaðsíður, segir Amnesty að meðalvatnsneysla Palestínumanna séu 70 lítrar á dag, samanborið við 300 lítra hjá Ísraelum.

Þá segir að sumir Palestínumenn fái oft minna en 20 lítra á dag, sem er lágmark sem mælt er með við neyðaraðstæður.

Amnesty segir að Ísraelar banni íbúum á Vesturbakkanum að grafa brunna. Þeir hafi jafnvel eyðilagt vatnstanka.

Á sama tíma njóti ísraelskir landtökumenn lífsins í sundlaugum og leiki sér í grænum görðum.

mbl.is