Krossar bannaðir í skólastofum

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að óleyfilegt sé að hengja upp róðukrossa (e. crucifix) í ítölskum skólastofum, sem hafa vísan í krossfestingu Jesú. 

Samkvæmt úrskurðinum er talið að með því að koma krossunum fyrir, sé brotið á rétti foreldra til að sjá börnum sínum menntun í samræmi við sannfæringu sína, auk þess sem það gangi gegn trúfrelsi barnanna. 

Hin ítalska Soile Lautsi fór með málið fyrir dómstólinn fyrir hönd barna sinna sem hún vildi mennta án þess að trúarbrögð kæmu þar við sögu. Hún kvartaði yfir því að börnin sín sem gengu í almenningsskóla í norðurhluta Ítalíu þyrftu að horfa upp á krossa í hverju herbergja skólans. Henni voru dæmdar 5.000 evrur, tæp milljón króna, í skaðabætur.  

Úrskurður Mannréttindadómstólsins hefur samkvæmt BBC vakið mikið mikla reiði í hinni kaþólsku Ítalíu eins og búast mátti við og hafa margir stjórnmálamenn brugðist reiðir við. Er haft eftir þarlendum ráðherra að niðurstaðan sé til skammar og annar sagði dómstólinn gleyma kristnum menningararfi Evrópu. Menntamálaráðherra Ítalíu, Mariastella Gelmini, sagði krossana til merkis um ítalska hefð en ekki kaþólisma.

Ítalska ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að dómnum verði áfrýjað en Vatíkanið segist vilja fara yfir úrskurðinn áður en það gefur út yfirlýsingu varðandi hann.  

Samkvæmt ítölskum lögum sem sett voru á þriðja áratug síðustu aldar er skylt að hafa krossa í skólastofum, þó kveðið sé á um aðskilnað ríkis og kirkju í ítölsku stjórnarskránni.

mbl.is