Idi Amin var ekki svo slæmur

Hugo Chávez, forseti Venesúela, er vinur vina sinna.
Hugo Chávez, forseti Venesúela, er vinur vina sinna. JORGE SILVA

Forseti Venesúela, Hugo Chávez, hefur nú tekið upp hanskann fyrir morðingjann „Carlos sjakala" og allnokkra þjóðarleiðtoga sem hann segir að séu ranglega ásakaðir um að vera „vondu gaurarnir". Þar átti hann við Robert Mugabe, Mahmoud Ahmadinejad og Idi heitinn Amin.

Greint er frá þessu á fréttavef BBC.

Sjakalinn svokallaði heitir réttu nafni Ilich Ramirez Sanchez og var handtekinn í Súdan árið 1994. Eftir það var hann sakfelldur fyrir að hafa myrt tvo franska leyniþjónustumenn og einn uppljóstrara árið 1975. Hann var einnig talinn hafa staðið fyrir sprengjuárásum, leigumorðum og gíslatökum. Hann afplánar nú lífstíðarfangelsi.

Í ræðu sem Chávez hélt í Caracas í gær sagðist hann verja Sjakalann. „Það skiptir mig engu hvað þeir segja í Evrópu á morgun," sagði Chávez. Hann sagði Carlos vera mikilvægan baráttumann byltingarinnar. Hann hefði verið dæmdur við óréttlát réttarhöld og sagði að hann væri einni mesti baráttumaður PLO. Chávez hefur áður sagt Carlos vera vin sinn og er sagður hafa átt í bréfasamskiptum við hann.

Í ræðunni lýsti hann einnig Ahmadinejad Íransforseta og Mugabe Zimbabweforseta sem bræðrum sínum. Um Amin, fyrrverandi forseta Uganda, sagði hann: „Við héldum að hann væri mannæta. Ég skal ekki segja, kannski var hann stórkostlegur þjóðernissinni, föðurlandsvinur."

Idi Amin komst til valda í Úganda árið 1971 og er talið að um 300.000 manns hafi verið drepnir á þeim átta árum sem hann var við völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert