11. september mínútu fyrir mínútu

Árásin 11. september
Árásin 11. september STR

„Okkur hefur verið sagt að flugvél hafi rekist á efri hæðir World Trade Center í New York. Logar og reykur. Engin nánari smáatriði eins og er”. Þannig hljómar eitt af yfir 500.000 skilaboðum sem send voru frá New York þann 11. September 2001. Skilaboðin voru birt á vefsíðunni Wikileaks í dag og í gær og draga þau upp lýsandi mynd af því hvernig þessi stærsti atburður 21. aldarinnar hingað til  gerðist í augum þeirra sem stóðu honum næst.

Norska blaðið Aftonposten segir frá birtingunni á Wikileaks. Fyrstu skilaboðin sem segja frá árásinni eru sjálfkrafa skilaboð frá tölvukerfi. Aðeins 6 sekúndum eftir að fyrstu flugvélinni var flogið á turnanna sendi tölvukerfi fyrirtækisins Cantor frá sér skilaboðin “Cantor API problem Trading system offline”.

Fyrri flugvélin lenti á turninum kl. 8:46 að morgni til. Þetta vissi greinilega ekki maðurinn sem þremur mínútum síðar sendi skilaboðin „þurfti að sinna erindum í morgun. Verð á skrifstofunni eftir smá stund.” Þegar seinni vélin flaug á turnana klukkan 9:03 sáu margir það í beinni útsendingu í sjónvarpi. Örfáum mínútum síðar byrja símboðin að streyma:  „Gerðu það hringdu í mig til baka. Ég verð að vita hvort þú ert í World Trade Center” og „Láttu mig vita hvort það er í lagi með þig, ég elska þig, mamma.”

Aðrir gripu til gálgahúmorsins: „Ég er að reikna út hversu mikið ég mun græða á líftryggingunni þinni…því ef þú hringir ekki í mig núna strax og segir mér að þú sért ekki dáinn þá geng ég frá þér!” Í öðrum skilaboðum sem send voru örfáum mínútum eftir að fyrri turninn hrundi var ástandið metið ískalt, því þar segir „Markaðsverðið á gulli hækkar enn meira eftir að ráðist var á World Trade Center.”

Í einum skilaboðum sem Wikileaks birtir segir „Twinkle og Turq eru í lagi, komin í skjól”, en Twinkle og Turqoise voru dulnefni leyniþjónustunnar yfir dætur þáverandi forseta George Bush.  Þá sýna önnur skilaboð að aðeins 2 klukkustundum eftir árásina, kl. 10:54, var byrjað að kalla út hermenn til mögulegrar innrásar, þótt enn væri ekki vitað fyrir víst hver stæði að baki árásinni. „Þú hefur verið kvaddur til hugsanlegar herkvaðningar, staðsetning enn óþekkt, pakkaðu og vertu tilbúinn að fara.”

Lista yfir skilaboðin á síðu Wikileaks má finna hér

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert