Pachauri ver loftslagsfræðinga

Rajendra Pachauri flytur erindi á fundi í Reykjavík.
Rajendra Pachauri flytur erindi á fundi í Reykjavík. Kristinn Ingvarsson

Yfirmaður Loftslagsnefndar SÞ, IPCC, Indverjinn Rajendra Pachauri, segir að í raun sé útilokað að fáeinir vísindamenn geti brenglað af ásettu ráði þá vísindalegu ráðgjöf sem nefndin veitir aðildarríkjum SÞ.  Strangt eftirlit sé haft með því að ekki læðist inn slíkt efni.

 Nýlega var lekið á vefinn tölvuskeytum og öðrum gögnum vísindamanna við CRU, loftslagsstofnun háskólans í Austur-Angliu í Bretlandi, sem hefur unnið mikið af rannsóknum af hitafari fyrir IPCC. Fram kemur að þeir hafi stundum breytt gögnum til að þau pössuðu betur við kenningarnar um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum og beitt sér af alefli gegn þeim kollegum sínum í heiminum sem efast um kenninguna.

 Pachauri gerir lítið úr málinu, að sögn Guardian, og segir að um oftúlkun sé að ræða hjá þeim sem fullyrða að málið hafa grafið undan IPCC. Hann er einnig andvígur því að yfirmaður CRU, Phil Jones, segir af sér vegna málsins.

,,'Eg held að menn ættu að vera mjög varkárir ...á þessum tímum getur  allt sem þeir skrifa, jafnvel bara fyrir sig orðið opinbert og að skrifa eitthvað niður er óvarkárni." Ástæðulaust væri samt að láta hefja rannsókn á umræddum tölvuskeytum og efni þeirra.

 Hann lagði hins vegar áhersluu á að sá sem hefði lekið efninu á vefinn eða brotist inn í tölvukerfi CRU yrði látinn svara til saka þar sem um glæp væri að ræða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina