Norðmenn telja Obama sýna hroka

Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. Reuters

Margir Norðmenn telja að Barack Obama Bandaríkjaforseti hafi sýnt þeim hroka með því að aflýsa þátttöku í nokkrum athöfnum í Ósló þegar hann fer þangað til að taka við friðarverðlaunum Nóbels.

Obama hefur meðal annars afþakkað boð um að mæta á tónleika, aflýst blaðamannafundi á Grand-hótelinu í Ósló og hyggst ekki mæta á sýningu til heiðurs honum í Friðarmiðstöðinni. Þá hyggst forsetinn ekki snæða morgunverð með Noregskonungi, en eiga stuttan fund með honum.

Norski fréttavefurinn VG hefur eftir tveimur sérfræðingum í almannatengslum að með þessu hafi Obama sýnt Norðmönnum hroka. Annar þeirra, Kjell Terje Ringdal, telur að Obama hafi gert þetta að yfirlögðu ráði vegna þess að hann vilji að ferð hans til Óslóar veki eins litla athygli og mögulegt sé, einkum í Bandaríkjunum. Obama óttist að með því að taka við friðarverðlaunum Nobels tengi margir Bandaríkjamenn hann við evrópska sósíalista. „Því færri Bandaríkjamenn sem vita af ferðinni því betra,“ segir Ringdal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert