Gagnrýna danska formanninn

Fresta þurfti samningaviðræðum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í dag þegar fulltrúar Afríkuríkjanna gengu út af fundum og sökuðu vesturveldin um að beita brögðum.

Þróunarríkin segja, að þróuðu ríkin verði að standa við þær skuldbindingar, sem þau undirgengist í Kyoto-sáttmálanum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2012. Þau gagnrýna vesturlönd fyrir að vilja ekki undirgangast lagalega bindandi samning um samdrátt í losun.

Á vef danskra dagblaðsins Berlingske Tidende er frá því greint að forsvarsmenn Afríkuríkjanna séu sérstaklega ósátt við framlag Connie Hedegaard, formanns COP15 ráðstefnunnar og verðandi umhverfisráðherra Evrópusambandsins. Þeir saka hana um að sýna ólýðræðisleg vinnubrögð og hafa aðeins hag þróaðra ríkja að leiðarljósi.

„Það er augljóst að danski formaður ráðstefnunnar hefur, á mjög svo ólýðræðislegan hátt, varið hagsmuni þróuðu ríkjanna í stað þess að skapa sátt og jafnvægi milli þróunarríkja og þróaðra ríkja,“ segir Lumumba Stanislaus Di-Aping, aðalsamningamaður Súdans.

„"Þau mistök sem gerð hafa verið eru svo umfangsmikil að það er algjörlega óásættanlegt að formaður ráðstefnunnar skuli leyfast að gæta ekki hagsmuna allra samningslandanna,“ bætir hann við.


mbl.is