Engar tölur í nýju uppkasti í Kaupmannahöfn

Grænfriðungar mótmæltu með óhefðbundnum hætti framan við danska þinghúsið í …
Grænfriðungar mótmæltu með óhefðbundnum hætti framan við danska þinghúsið í gær. Reuters

Nýtt uppkast að lokayfirlýsingu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn var birt í morgun en í því eru engar tölur um losun gróðurhúsalofttegunda og engin markmið sett fram um samdrátt í slíkri losun. Þá voru heldur engar upphæðir nefndar varðandi framlög til fátækari ríkja svo þau geti gripið til aðgerða gegn loftmengun.

Verið er að fjalla um þessi mál í litlum ráðherrahópum í þeirri von, að samkomulag náist fyrir föstudag þegar leggja á niðurstöðuna fyrir þjóðarleiðtoga.

Markmið ráðstefnunnar er að ná samkomulagi um samning, sem taki við af Kyoto-sáttmálanum árið 2012.  

Alls eiga 194 þjóðir aðild að loftslagssáttmála SÞ. Þjóðarleiðtogar eru nú að koma til Kaupmannahafnar til að taka þátt í lokaspretti ráðstefnunnar. Í morgun kom Robert Mugabe, forseti Simbabve, þangað. Þá er Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kalíforníu, í borginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina