Sakar Hedegaard um dónaskap

Connie Hedegaard ávarpaði fundargesti í upphafi loftlagsráðstefnunnar í síðustu viku.
Connie Hedegaard ávarpaði fundargesti í upphafi loftlagsráðstefnunnar í síðustu viku. Reuters

Fulltrúi Frakklands á loftlagsráðstefnunni Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn telur að kenna megi óþolinmæði Connie Hedegaard, fráfarandi formanns ráðstefnunnar, um hversu rafmagnað andrúmsloftið er orðið á ráðstefnunni. Hún hafi verið of óþolinmóð í vinnu við að ná nýjum loftlagssamningi.

Að mati Brice Lalonde, sendiherra og formanns samninganefndar Frakklands í loftlagsmálum, hefur Connie Hedegaard hagað sér afar klaufalega í samningaviðræðunum. Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende.

„Ráðstefnan var frá upphafi illa skipulögð,“ hefur Lalonde látið hafa eftir sér á vef franska dagblaðsins Liberation.

Hann segir hyldypi vera milli löngunar formannsins um að finna lausn og þeirrar formföstu venju sem einkenni allt starf Sameinuðu þjóðanna. Þróunarlöndin óttist ennþá að þróuðu ríkin þvingi fram niðurstöðu og það skapi rafmagnað andrúmsloft.

Að sögn Lalonde hefur Hedegaard hagað sér klaufalega með því að halda óformlega fundi með fulltrúum þróaðra ríkja helgina áður en fulltrúar allra þátttökulandanna komu til Kaupmannahafnar.

„Það er dónalegt að koma of seint, en það er ennþá dómalegra að koma of snemma,“ segir Lalonde.

Samkvæmt upplýsingum sem danska dagblaðið hefur aflað sér frá danska umhverfis- og orkuráðuneytinu voru fleiri fulltúar frá þróunarlöndum en þróuðum ríkjum þegar óformlegu viðræðufundirnir fóru fram í Kaupmannahöfn. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hafði 33 þróunarlöndum verið boðið að taka þátt og sendu 26 þeirra fulltrúa sína til fundar. Alls var 18 þróuðum ríkjum boðið að taka þátt og sendu öll löndin fulltrúa sína til fundar.  


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert