Hagsmunir fólks settir ofar hagsmunum banka

Forsvarsmenn InDefence afhentu Ólafi Ragnari Grímssyni undirskriftalistana sl. laugardag.
Forsvarsmenn InDefence afhentu Ólafi Ragnari Grímssyni undirskriftalistana sl. laugardag. mbl.is/Ómar

Írski hagfræðingurinn David McWilliams skrifar grein í Irish Independent í dag þar sem hann fjallar um Icesave-málið undir yfirskriftinni: „Ísland sýnir fram á mikilvægi þess að setja hagsmuni fólks ofar hagsmunum banka“.

Í greininni fjallar McWilliams um ákvörðun forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Hann segir að Ólafur Ragnar hafi með þessu staðið upp fyrir því sem rétt sé. Forsetinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé andlýðræðislegt af hálfu íslenskra stjórnvalda að krefjast þess að íslenskur almenningur greiði erlendum sparifjáreigendum, sem hafi lagt fé inn í íslenska banka sem hafi svo farið í þrot.

McWilliams segir að ef forsetinn hefði staðfest lögin þá hefði hann refsað Íslendingum fyrir mistök sem yfirmenn bankanna beri ábyrgð á.

Það grafi undir lýðræðinu að neyða fólk til þess að greiða skuldir með þessum hætti. McWilliams segir að forseti Íslands hafi með ákvörðun sinni tekið upp hanskan fyrir málstað litla mannsins, sem eigi undir högg að sækja.

Hann vísar til undirskriftarlista Indefence hópsins og segir að Íslendingar hafi ákveðið að fólkið, en ekki elítan, eigi að taka ákvörðun um framtíð lands og þjóðar.

Hann ber stöðu Íslands saman við stöðu mála á Írlandi og kemst að þeirri niðurstöðu að Írar geti lært mikið af Íslendingum. Ákvörðunin hafi verið erfið en að minnsta kosti séu Íslendingar að reyna að taka á málunum.

Grein McWilliams.


mbl.is