Netanyahu heimsækir Auschwitz

Benjamin Netanyahu og Angela Merkel á sameiginlegum blaðamannafundi í Berlín …
Benjamin Netanyahu og Angela Merkel á sameiginlegum blaðamannafundi í Berlín í dag. THOMAS PETER

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, mun í næstu viku heimsækja Auschwitz, útrýmingarbúðir nasista í Póllandi, í tilefni af alþjóðlegum minningardegi um helförina.

Forsætisráðherrann mun ræða við pólska ráðamenn í Warsaw áður en hann leggur leið sína að útrýmingarbúðunum fyrrverandi í útjaðri Krakow 27. janúar nk. Talið er að heimsóknin verði mjög tilfinningaþrungin stund fyrir forsætisráðherrann ísraelska, en mestöll fjölskylda Söru, eiginkonu hans, týndi lífinu í helförinni.

Árið 2005 útnefndu Sameinuðu þjóðirnar 27. janúar ár hvert sem alþjóðlegan minningardag um helförina. Ástæðan er sú að þann dag árið 1945 voru fangarnir í Auschwitz-Birkenau loks frelsaðir, en fangabúðirnar voru þær stærstu sem nasistar ráku.

Rúmlega 1,1 milljón fórnarlamba lét lífið í Auschwitz-Birkenau. Um milljón manns voru gyðingar frá Póllandi, en um 100 þúsund manns voru gyðingar sem nasistar höfðu handtekið víðs vegar um Evrópu. Margir létust vegna vinnuþrælkunar, aðrir úr hungri og sjúkdómum, en flestir voru sendir í gasklefana.

Netanyahu er í dag staddur í Berlín á fundi ráðamanna Þýskalands og Ísraels, en fundinum er ætlað að leggja áherslu á hin sterku en jafnframt flóknu tengsl landanna tveggja í ljósi helfararinnar.

Í upphafi eins dags opinberrar heimsóknar sinnar lagði Netanyahu leið sína að minnismerki um helförina í hjarta Berlínar, auk þess sem hann færði Angelu Merkel Þýskalandskanslara gjöf. 


mbl.is

Bloggað um fréttina