Íslandi og Inúítum úthýst

Aðildarríki Norðurskautsráðsins eru ljósblá, ríki með áheyrnarfulltrúa eru dökkblá.
Aðildarríki Norðurskautsráðsins eru ljósblá, ríki með áheyrnarfulltrúa eru dökkblá. Wikipedia

Íslendingar og forystumenn Inúíta hafa lýst óánægju sinni með að vera ekki boðið til fundar um sjálfsstjórn Norðurskautssvæða. Kanadamenn hafa boðið ýmsum aðildarlöndum Norðurskautsráðsins til fundarins sem haldinn verður í Qubec í mars.

Kanadíska fréttastofna CBC News greinir frá því að Lawrence Cannon, utanríkisráðherra Kanada, hafi nýlega greint frá því að hann verði í forsæti fundar utanríkisráðherra frá strandríkjum við Norður-Íshafið, þ.e. frá Noregi, Rússlandi, Danmörku (Grænland meðtalið) og Bandaríkjunum, sem haldinn verður í Chelsea í Quebeck.

Ráðherrarnir ætla m.a. að ræða leiðir til að efla efnahagsþróun á norðurhjara áður en utanríkisráðherrafundur G8 ríkjanna verður haldinn í Gatineau í Quebec. Viðræður um málefni norðurslóða eru venjulega á vettvangi Norðurskautsráðsins.  Þar eiga sæti fulltrúar átta þjóða og frumbyggja á norðurslóðum.

Fréttastofan hefur það eftir Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra Íslands, að boða hefði átt allar aðildarþjóðir Norðurskautsráðsins til fundarins, þ.e. einnig Íslendingum, Finnum og Svíum.

Sagt er að löndin þrjú hafi ekki verið boðið því svonefndur Arctic 5 hópur sé bundinn við lönd sem liggi að Norður-Íshafi og geti gert tilkall til hafsbotns þess samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Haft er eftir Össuri að það séu mistök að efna til viðræðna án þess að allir hlutaðeigandi fái að koma þar að.

„Ég er óánægður með þetta,“ sagði Össur. „Ég tel að þetta sé röng leið, mér finnst að Kanada ætti frekar að reyna að byggja upp samstöðu og sterkan stuðning allra ríkja Norðurskautsráðsins.“

Löndin fimm sem ætla að hittast í mars héldu fyrst fund í Grænlandi árið 2008. Fulltrúar frumbyggja á norðurslóðum mótmæltu því að vera ekki boðið til þess fundar og kváðust óttast að  Kanadamenn og hin löndin fjögur væru að byggja upp nýja stofnun óháða Norðurskautsráðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina