Atvinnuleysi vex í Bretlandi

Aukið atvinnuleysi í Bretlandi kemur sér illa fyrir Gordon Brown …
Aukið atvinnuleysi í Bretlandi kemur sér illa fyrir Gordon Brown forsætisráðherra. Nú styttist óðum í þingkosningar í Bretlandi. Reuters

Atvinnuleysi óx í Bretlandi í janúar s.l. en úr því hafði dregið mánuðina tvo þar á undan. Atvinnuleysi hefur ekki mælst meira en nú frá því Verkamannaflokkurinn komst til valda árið 1997, samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í dag.

Fregnir af vaxandi atvinnuleysi þykja slæmar fyrir Gordon Brown forsætisráðherra. Þingkosningar nálgast óðum í Bretlandi og gætu þær verið haldnar í maí. Skoðanakannanir gefa til kynna að flokkur Browns muni tapa fyrir Íhaldsflokknum.

Í síðasta mánuði bættust 23.500 í hóp þeirra sem sóttu um atvinnuleysisbætur í Bretlandi. Nú er 1,64 milljón  manna án atvinnu þar í landi. Þeir hafa ekki verið fleiri frá því í apríl 1997. Þetta er einnig mesta fjölgun atvinnulausra á einu bretti frá því í júlí í fyrra, að sögn bresku hagstofunnar.

Því hafði verið spáð að draga myndi úr fjölda atvinnulausra í janúar s.l. um 13.500 manns. Endurskoðaðar atvinnuleysistölur fyrir desember síðastliðinn sýna að þá fækkaði atvinnulausum um 9.600 en spáð hafði verið að þeim myndi fækka um 15.200.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert