Konur fá bætur vegna mismununar

Háskólinn í Lundi.
Háskólinn í Lundi. Wikipedia/Fredrik T

Háskólinn í Lundi í Svíþjóð hefur samþykkt að greiða hópi kvenna skaðabætur. Þær höfðuðu mál gegn skólanum og sökuðu hann um að hafa veitt karlkyns stúdentum forgang en þeir voru í minnihluta nemenda.

„Elin Sahlin og 23 aðrar konur fá skaðabætur að upphæð 35.000 krónur (623.000 íslenskar krónur). Konurnar fóru í mál við háskólann vegna ólöglegrar mismununar eftir að þrír karlar fengu forgang við innritun í sálfræðinám,“ sagði í yfirlýsingu Háskólans í Lundi.

Konurnar höfðu sótt um inngöngu í sálfræðinám haustið 2008 en samkeppni var á meðal nemenda um inngöngu í námið. Þá fengu einungis karlmenn inngöngu.

Ástæðan var sú að háskólinn, sem er einn sá stærsti í Svíþjóð, var með stefnu sem kvað á um að veita því kyninu forgang  sem væri í minnihluta að því tilskyldu að umsækjendur væru metnir jafnhæfir.

„Karlarnir fengu forgang í sálfræðinámið því fleiri konur en karlar sóttu um inngöngu,“ sagði í tilkynningu háskólans. Við skólann eru um 40 þúsund nemendur.

Í Svíþjóð eru konur um 60% háskólanema en landið þykir til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Sænska ríkisstjórnin lýsti því yfir í síðasta mánuði að fallið yrði frá jákvæðri mismunun í háskólum, sem var samþykkt árið 2003. Hún hafi orðið til þess að karlkyns stúdentar fengu forgang við inngöngu í margar vinsælar námsgreinar.

„Menntakerfið ætti að opna dyrnar - en ekki að skella þeim á nefið á áhugasömum ungum konum,“ sagði Tobias Kranz ráðherra æðri menntunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina