Bera ábyrgð á dauða kvennanna

Afganskar konur ganga fram hjá bandarískum hermanni í Kabúl.
Afganskar konur ganga fram hjá bandarískum hermanni í Kabúl. Reuters

Yfirmenn bandaríska hersins í Afganistan hafa játað að hermenn þeirra hafi átt þátt í dauða þriggja kvenna í bardaga sem átti sér stað í febrúar síðastliðnum. Hersveitirnar höfðu áður neitað ásökunum þess efnis. Árásin átti sér stað að næturlagi 12. febrúar sl. og vöknuðu strax spurningar um aðild bandarískra hermanna að dauða kvennanna. Fréttir bárust um að hermennirnir hefðu fjarlægt byssukúlur úr líkum kvennanna til að fela slóð sína.

 Embættismenn NATO sögðu í gær að teymi afganskra rannsóknarmanna hefði fundið sannanir fyrir því að átt hefði verið við vettvang árásanna, m.a. að byssukúlur hefðu verið fjarlægðar úr veggjum í nágrenni staðarins þar sem konurnar fundust látnar. Í dag hafa hins vegar yfirmenn NATO neitað því að átt hafi verið við vettvanginn, segir í frétt New York Times.

Yfirmaður bandaríkjahers í Afganistan og NATO herliðsins, Stanley A. McChrystal, hefur bannað hernaðaraðgerðir að næturlagi til að koma í veg fyrir að óbreyttir borgarar verði fórnarlömb árása.

Ein kvennanna sem lést í febrúar var ólétt tíu barna móðir og önnur var ólétt sex barna móðir. Yfirmenn NATO höfðu áður gefið í skyn að konurnar hefðu verið stungnar til bana áður en bardagi milli uppreisnarmanna og hermanna braust út.

Í gær gaf bandaríski herinn út yfirlýsingu þess efnis að „alþjóðlegt herlið“ bæri ábyrgð á dauða kvennanna. Skotið hefði verið á hermennina og í kjölfarið hefðu konurnar verið drepnar fyrir slysni.

„Við biðjumst innilegrar afsökunar á þessari aðgerð og tökum ábyrgð á gerðum okkar þessa nótt. Við gerum okkur grein fyrir því að missir fjölskyldnanna er mikill,“ sagði talsmaður NATO herliðsins í Kabúl.

mbl.is

Bloggað um fréttina