Ný tillaga um hvalveiðar vekur hörð viðbrögð

Hvalveiðar Íslendinga eru umdeildar.
Hvalveiðar Íslendinga eru umdeildar. mbl.is/ÞÖK

Málamiðlunartillaga Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) sem kynnt var í gærkvöld hefur þegar vakið hörð viðbrögð dýraverndunarsinna. Tillagan felur í sér að vísindahvalveiðar Japana dragast saman um 75% á næstu 5 árum og að Íslendingar og Norðmenn fái að halda áfram atvinnuveiðum í að minnsta kosti næstu 10 ár.

„Sú staðreynd að þessi tillaga sé yfir höfuð til umræðu sýnir hversu illa IWC er úr tengslum við nútímaleg gildi," hefur BBC efir Claira Bass, framkvæmdastjóra sjávarspendýraverkefnis Alþjóðlega dýraverndunarfélagsins WSPA.  „Þeir líta algjörlega fram hjá því að það að sprengja hugsandi dýr með skutlum er með öll ómannúðlegt."

Sumir dýraverndunarsinnar virðast þó að sögn BBC líta svo á að algjört bann gegn hvalveiðum sé óraunhæft og að áætlanir um að minnka þær verulega og auka um leið alþjóðlegt eftirlit með þeim sé jákvætt skref.

Áframhaldandi veiðar á langreyðum og veiðar Japana í Suðurhöfum, sem hafa verið lýst friðlendur hvala, eru hinsvegar afar umdeildar.  „Það eru nokkrir jákvæðir punktar í þessari tillögu, en önnur atriði eru með öllu óásættanleg," segir Sue Lieberman, framkvæmdastjóri alþjóðadeildar Pew umhverfisverndarsamtakanna.

Samkvæmt tillögunni, sem birt er á heimasíðu Alþjóðahvalveiðiráðsins, er gert ráð fyrir að Íslendingar veiði 80 langreyðar og 80 hrefnur árlega fram til ársins 2020. Eftir það þurfa aðildarríki ráðsins að gera það upp við sig hvort þau framlengi samkomulagið, með eða án breytinga, eða hverfi aftur til núverandi ástands.

mbl.is