Axarskaft Browns rétt fyrir kjördag

Gordon Brown á ekki sjö dagana sæla í kosningabaráttunni í …
Gordon Brown á ekki sjö dagana sæla í kosningabaráttunni í Bretlandi. SUZANNE PLUNKETT

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú komið sér í klípu, tæpri viku fyrir kosningar. Brown lét óvart heyrast til sín þegar hann uppnefndi gamla ekkju og kallaði hana fordómafulla, eftir að hafa spjallað við hana fyrir framan hljóðnema í kosningabaráttunni.

Konan ræddi við hann um skuldir hins opinbera, skatta og innflytjendamál, í bænum Rochdale í norðvesturhluta Englands.

Atvikið varð þannig að strax eftir samtalið við konuna steig Brown upp í bíl og var ekið burt. Þá var hann hins vegar enn með þráðlausan hljóðnema í barminum og í beinni útsendingu. Þar heyrðist hann eiga samtal við aðstoðarmann sinn.

„Þetta var algjört stórslys," sagði Brown. „Það hefði aldrei átt að setja mig með þessari konu. Hver átti þá hugmynd eiginlega?" Síðan bætti hann við: „Þetta var bara einhver fordómafull kona."

Konan, Gillian Duffy, sagði hins vegar við blaðamenn eftir að þetta heyrðist, að hún vildi fá afsökunarbeiðni frá Brown, vegna ummæla hans sem hefðu komið henni úr jafnvægi. „Ég varð fyrir miklum vonbrigðum," sagði Duffy, sem lýsti sjálfri sér sem ævinlöngum stuðningsmanni Verkamannaflokksins. „Hann er upplýstur maður. Af hverju er hann að segja svona hluti?“

Aðspurð hvort hún vildi ennþá að hann héldi skrifstofunni sinni við Downingstræti 10 sagði hún að nú væri sér sama hvort hann gerði það eða ekki. Brown baðst svo afsökunar í viðtali við ríkisútvarpið, BBC. „Ég bið konuna innilega afsökunar. Ég er ekki á þeirri skoðun að hún sé fordómafull.“

Verkamannaflokkurinn er nú í þriðja sæti í flestum skoðanakönnunum, á eftir Íhaldsflokknum og Frjálslyndum demókrötum. Þetta axarskaft Browns var því aðeins til að bæta gráu ofan á svart í slæmri stöðu Verkmannaflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina