Blönduð hjónabönd aldrei fleiri

Hjónaband fólks af ólíkum kynþætti var lengi vel bannað með …
Hjónaband fólks af ólíkum kynþætti var lengi vel bannað með lögum í Bandaríkjunum, en verður nú æ algengara. Reuters

Met var slegið í fjölda hjónabanda af blönduðum kynþáttum í Bandaríkjunum árið 2008, samkvæmt skýrslu sem birt var í dag. 14,6% þeirra Bandaríkjamanna sem gengu í hjónaband það ár giftust einstaklingi af öðrum kynþætti.

Hlutfall blandaðra hjónabanda var þannig 6 sinnum hærra en það var árið 1969 og tvöfalt hærra en árið 1980, samkvæmt skýrslu rannsóknarstöðvarinnar Pew. Þessa mikla fjölgun má að hluta rekja til þess að langvarandi félagsleg tabú gegn blönduðum hjónaböndum eru að veikjast en líka að hluta til þess mikla fjölda innflytjenda sem komið hefur til Bandaríkjanna síðustu áratugi frá Suður-Ameríku og Asíu.

Alls gengu 280.000 blönduð pör í hjónaband árið 2008. Algengasta blandan er hjónaband hvítra og Suður-Amerískra, en 4 af hverjum 10 hjónböndum voru þannig samansett. Í 15% tilfella giftust hvítir asískum og í 11% tilfela giftust svartir hvítum.

Árið 1961 giftist faðir Barack Obama Bandaríkjaforseta móður hans, sem var hvít. Á þeim tíma voru innan við 1 af hverjum 1.000 hjónaböndum blanda svartra og hvíta. Þegar komið var fram á 9. áratuginn var um blandað hjónaband svartra og hvíta að ræða í u.þ.b. 1 af hverjum 150 tilfellum en árið 2008 voru 1 af hverjum 60 hjónaböndum þannig blönduð.

Hjónaband fólks af ólíkum kynþætti var bannað með lögum í flestum ríkjum Bandaríkjanna fram á miðja síðustu öld. 15 ríki héldu lögum gegn blönduðum hjónaböndum í gildi allt fram til ársins 1967, þegar hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að ólöglegt væri að banna fólki af ólíkum kynþætti að giftast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert