Dæmt í mengunarslysamáli á Indlandi

Dómstóll á Indlandi hefur dæmt í 26 ára gömlu máli sem snérist um gasleka hjá bandarísku fyrirtæki í Bhopal í Madhya Pradesh héraði sem varð þúsundum Indverja að bana. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að átta manns, þeirra á meðal þáverandi forstjóri fyrirtækisins, væru sekir í málinu. Refsing verður ákveðin síðar.

Forsaga málsins er sú að 3. desember 1984 sprakk gasleiðsla sem lá frá geymslutanki bandarísks fyrirtækis sem framleiddi meindýraeitur, með þeim afleiðingum að þúsundir manna létu lífið en um er að ræða eitt mannskæðasta vinnuslys sögunnar.

Áttmenningarnir sem í dag voru dæmdir voru upphaflega ákærðir fyrir manndráp af vítaverðu gáleysi, árið 1996 ákvað hæstiréttur landsins að breyta ákærunum í mannbráð af völdum vanrækslu en hámarksrefsing fyrir slíkt afbrot er aðeins tveggja ára fangelsi. Þessi ákvörðun hæstaréttar vakti hörð viðbrögð eftirlifandi ættingja fórnarlamba slyssins.

„Hvaða þýðingu hefur það þó þeir hafi verið dæmdir, hvaða þýðingu hefur tveggja ára refsing?“ segir Sadhna Karnik, talsmaður fórnarlamba Bhopal-gaslekans. „Þeir geta áfrýjað dómnum til æðra dómstigs.“

Samkvæmt opinberum tölum létust a.m.k. 3.500 á fyrstu þremur dögunum eftir gaslekann, en samkvæmt tölum sjálfstæðra rannsakenda bendir allt til þess að fórnarlömb lekans hafi í reynd verið 8-10 þúsund manns. Einnig benda rannsóknir til þess að á árunum 1984-1994 hafi 25 þúsund manns dáið af völdum síðbúinna áhrifa gaslekans.

Opinberar tölur sýna að frá árinu 1994 hafi a.m.k. 100 þúsund manns sem bjó í nágrenni við verksmiðjuna, sem staðsett er í miðju Madhya Pradesh héraði, átt við þrálát veikindi að stríða auk þess sem vitað er að 30 þúsund íbúar á svæðinu búa við mengað grunnvatn vegna málsins. 

Fyrirtækið Dow Chemical keypti árið 1999 Union Carbide sem rak verksmiðjuna þegar slysið átti sér stað. Talsmenn Dow Chemical hafa vísað frá allri skaðabótaábyrgð og benda á að málið hafi verið gert upp með 470 milljón bandaríkjadala sátt við indversk stjórnvöld árið 1989.

Mestallt féð var notað til þess að greiða þeim fórnarlömbum sem misstu vinnugetu sína á bilinu 1-2 þúsund bandaríkjadali eða sem samsvarar 130-260 þúsundum íslenskra króna í bætur. Mörg fórnarlamabanna fengu hins vegar engar skaðabótagreiðslur.

Í yfirlýsingu sem Dow Chemical hefur sent frá sér er bent á að Union Carbide hafi gert allt sem það gat til þess að hjálpa fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra. Tekið er fram að það sé á ábyrgð indverskra stjórnvalda að tryggja hreint drykkjarvatn og fullnægjandi heilbrigðiþjónustu á svæðinu.

Talsmenn fyrirtækisins hafa alla tíð haldið því fram að gassprengingin hafi verið afleiðing skemmdarverka, en fórnarlömb slyssins hafa um lengri tíma barist fyrir því að fyrirtækinu verði gert að greiða hærri bætur.

„Réttlætinu verður ekki náð í Bhopal fyrr en þeir sem ábyrgð báru á málinu hefur verið refsað með viðeigandi hætti,“ segir Rashida Bee, formaður Samtaka kvenkyns starfsmanna hjá Bhopal Gas.

Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að bæir í nágrenni verksmiðjunnar séu enn mengaðar af lífshættulegum efnum sem mengi grunnvatn og ræktarland með þeim afleiðingum að stór hluti barna fæðist með fæðingargalla og króníska sjúkdóma.

Ráðamenn í Madhya Pradesh héraði hafa aðeins látið hreinsa lítinn hluta þess lands sem mengaðist í vinnuslysinu, en talið er að hundruð þúsund tonn af eitruðum efnum hafi lekið út í slysinu. Vita er að þúsundum tonna til viðbótar var komið fyrir í sérstökum geymsluhólfum í jörðinni skammt frá verksmiðjunni á árunum fyrir slysið, en fyrirtækið losaði sig þannig við efnaúrgang sinn.

Talmenn ráðamanna halda því fram að eiturefnin séu ekki hættuleg fólki og ætluðu máli sínu til stuðnings að opna svæðið fyrir gestum og gangandi. Síðar var hætt við þau áform.


Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina