Andislömsk vín- og svínakjötshátíð bönnuð

Eiffelturninn, eitt af táknum Parísar. Hann tengist fréttinni ekki beint.
Eiffelturninn, eitt af táknum Parísar. Hann tengist fréttinni ekki beint. Reuters

Lögregluyfirvöld í París lögðu í dag bann við því að haldin verði vín- og svínakjötsgötuhátíð í borginni. Átti hún að fara fram á föstudaginn og með henni átti að mótmæla „islam-væðingu“ vissra hverfa í París en trúræknir múslimar neyta hvorki áfengis né svínakjöts. Á þeim tíma sem stóð til að halda hátíðina eru múslimar á svæðinu venjulega á leið úr bænahaldi í mosku og viðbúið að fjöldi múslima verði á ferli um svæðið þá.

Segist lögregla banna hátíðina í þágu laga og allsherjarreglu.

Hátíðin hagði valdið hneykslan stjórnmálamanna og and-rasískra samtaka sem kölluðu samkomuna fordómafulla og til þess fallna að leiða til ofbeldis á götum úti.

Hugmyndin að hátíðinni á sér rætur á samskiptavefnum Facebook. Þar stofnaði kona, sem kallar sig Sylvie Francois, hóp sem skyldi berjast gegn áhrifum islams í hverfinu hennar. Sagði hún fólk ekki geta fengið sér í glas í friði og konum væri gefið illt auga væru þær ekki með blæjur. Hvatti hún meðlimi hópsins, 7000 talsins, til að safnast saman með vín og svínapylsur í mótmælaskyni

Í Frakklandi búa á bilinu fimm til sex milljónir múslima.

Islamskir feðgar á bæn.
Islamskir feðgar á bæn. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina