Páfi gagnrýnir belgísku lögregluna

Benedikt XVI páfi
Benedikt XVI páfi Reuters

Benedikt XVl páfi, gagnrýndi í dag aðgerðir belgísku lögreglunnar í liðinni viku en lögreglan rannsakar meinta kynferðisglæpi kaþólskra presta í Belgíu. Segir páfi aðgerðirnar sorglegar en lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd af páfagarði. 

Í skilaboðum páfa til belgískra biskupa lýsir páfi yfir samstöðu með þeim á þessari sorgarstund.

Lögregla leitaði í nokkrum byggingum sem tengjast erkibiskup sem hefur látið af störfum og grafhýsum tveggja preláta, samkvæmt frétt á vef BBC.

Embætti saksóknara segir aðgerðir lögreglu tengjast ásökunum um að kirkjunnar þjónar hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi.

Lögreglan í Leuven lagði á fimmtudag hald á um 500 skjöl og tölvu frá skrifstofu kaþólsku kirkjunnar þar í borg. Jafnframt var leitað í höfuðstöðvum kaþólsku kirkjunnar í Belgíu og fleiri stöðum.
mbl.is

Bloggað um fréttina