Fornleifar birtast undan ís

Frá Yellowstone
Frá Yellowstone

Fornleifafræðingar telja sig hafa fundið 10.000 ára gamalt trévopn, líkt spjóti, í bráðnandi ís nálægt Yellowstone þjóðgarðinum.

Um er að ræða einhvers konar kastör úr birki sem fannst hátt upp í Klettafjöllunum í Bandaríkjunum.

Hún er 91 cm löng og líkist lítilli, boginni trjágrein en á henni sjást merki um örvarodd sem veiðimaður hefur væntanlega tálgað til.

Á hinum enda hennar er lítil gróf sem hefur sennilega náð gripi í rauf á atlatl, áhaldi sem var notað til að skjóta örvum og litlum spjótum og var undanfari bogans.

Háskólinn í Colorado tilkynnti um fundinn í gær.

„Við gerðum okkur ekki grein fyrir því fyrr en snemma á þessum áratug að það væri möguleiki á að finna fornminjar inni í bráðnandi ís á sífrerasvæðum víðs vegar um heiminn,“ segir Craig Lee, sem starfar hjá Colorado háskóla við klettarannsóknir, en hann fann vopnið.

„Við erum ekki að tala um að bræða heilu jöklana, bara litla skafla sem má sjá hér og þar t.d. í þjóðgarðinum í Klettafjöllum,“ bætir Lee við en hann er sérfræðingur í afhjúpun fornleifa úr snjó og ís.

Hann segir að kastörin hafi varðveist í ísnum í 10.000 ár og þar sem loftslagsbreytingar flýti bráðnun íss og jökla muni eldgamlar fornleifar senn koma æ oftar í ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina