Ísraelsmenn biðjast ekki afsökunar

Skólabörn í Líbanon settu árásina á skipalestina á svið nýlega …
Skólabörn í Líbanon settu árásina á skipalestina á svið nýlega í mótmælaaðgerðum gegn Ísrael. Reuters

Ísraelsmenn munu aldrei biðjast afsökunar á því að þurfa að verja hendur sínar, sagði háttsettur embættismaður þar í landi í morgun. Tyrkir krefjast þess, að Ísraelsstjórn biðjist afsökunar á árás á skipalest, sem flutti hjálpargögn til Gasasvæðisins fyrr á þessu ári en þar létu 9 lífið, allt tyrkneskir ríkisborgarar.

„Ísrael mun aldrei biðjast afsökunar á því að þurfa að verja borgara sína," sagði embættismaðurinn við AFP fréttastofuna. Auðvitað hörmum við manntjónið en það voru ekki Ísraelsmenn sem áttu upptökin að ofbeldinu."

Ahmet Davutoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í viðtali við tyrkneskt blað í morgun, að stjórnvöld í Ankara muni slíta stjórnmálasambandi við Ísraelsmenn ef Ísrael biðst ekki afsökunar á hernaðaraðgerðunum gegn hjálparskipunum.  

Ísraelsmenn brugðust ókvæða við þessum ummælum. „Viljir þú fá afsökunarbeiðni beitir þú ekki hótunum eða setur úrslitakosti," sagði Yigal Palmor, talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins. „Allt bendir til þess, að tilgangur Tyrkja sé í raun annar." 

Davutoglu sagði við blaðið Hurriyet, að Tyrkir hefðu lokað lofthelgi sinni fyrir ísraelskum orrustuflugvélum. Þá sagði hann að sambandi við Ísraelsmenn yrði slitið ef Ísrael bæðist ekki afsökunar á árásinni eða viðurkenndi að árásin hefði ekki verið réttmæt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert