Hamstra matvörur

Frá Christchurch.
Frá Christchurch. Reuters

„Ég fór að kaupa rafhlöður í útvarpið og þá hafði drifið að mikið af fólki með reiðufé sem var komið til að hamstra mjólk og þess háttar. Það liggja allar rafrænar greiðslur niðri og ekki hægt að kaupa neitt nema með reiðufé,“ segir Hilmar Kjartansson læknir um ástandið í einu úthverfa Christchurch. 

Hilmar er búsettur í borginni ásamt eiginkonu sinni Svövu Kristinsdóttur og börnunum Birnu Líf og Árna Kristni.

„Síðan erum við búin að vera að fylla á tómar mjólkurfernur og annað sem við getum fyllt með vatni því það er ekki útséð með að það verði rennandi vatn hérna áfram. Yfirvöld vita ekki hvenær rafmagnið kemst á aftur. Við erum frekar heppin að því leyti að við erum með gaseldavél.“

Miklu stærri en skjálftinn á Íslandi sumarið 2000

Fjölskyldan býr í um 15 km fjarlægð frá miðbænum. 

„Við búum í miklum hafnarbæ [sem er tengdur Christchurch um göng]. Við vöknuðum upp við þennan gríðarlega hristing. Ég var að vinna á Landspítalanum 17. júní 2000 þegar sá skjálfti reið yfir á Íslandi og verð að segja að þessi var bæði miklu, miklu lengri og eins hristist allt miklu, miklu lengur fyrir vikið.

Við hlupum inn til krakkanna sem var kannski eins gott því þegar við snerum aftur inn í hjónaherbergið voru bækurnar hrundar úr hillunum. Þær hefðu lent beint í hausnum á okkur ef við hefðum ekki komið okkur í burtu,“ segir Hilmar en fjölskyldan býr í um 100 ára gömlu timburhúsi.

„Ég fór áðan í bæinn og sá að það er hrunið mikið af þessum hlöðnu reykháfum sem einkenna mörg húsin. Það er stór hleðsluveggur á leiðinni í grunnskólann sem dóttir mín er í sem hefur hrunið líka.“

Hilmar segir Nýsjálendinga almennt taka hamförunum með ró enda fari þar afskaplega jarðbundið fólk „sem kippi sér ekki of mikið upp við hlutina“.

Hilmar með börnunum.
Hilmar með börnunum.
Svava og Birna Líf og Árni Kristinn.
Svava og Birna Líf og Árni Kristinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert