Ísraelskur skólastjóri kallaður á teppið

Nemendur í bænum Sderot æfa viðbrögð við sprengjuárás.
Nemendur í bænum Sderot æfa viðbrögð við sprengjuárás. AP

Skólastjóri ísraelsks skóla nærri Gasa hefur verið kallaður á fund menntamálaráðuneytis landsins vegna þess að skólinn notaði kennslubók sem greinir frá sjónarmiðum bæði Palestínumanna og Ísraela um átökin á svæðinu.

Í kennslubókinni sem nefnist „Að læra um söguskýringu annarra“ má finna sjónarmið beggja fylkinga varðandi átökin í kringum stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

Hverri blaðsíðu er skipt í þrennt. Hægra megin er sagan samkvæmt Ísraelum, vinstra megin er útgáfa Palestínumanna og í miðjunni er auður dálkur þar sem nemendur geta skrifað sína eigin skoðun á málunum.

„Á öðrum skóladegi skólaársins bárust okkur fyrirmæli um að nota ekki bókina vegna þess að hún hafði ekki verið samþykkt,“ lét kennari við Shaar HaNegev skólann nærri bænum Sderot hafa eftir sér.

Sagði kennarinn að menntamálaráðuneytið hafi ekki einu sinni haft fyrir því að spyrja hvernig bókin hafi verið notuð og að viðbrögðin væru til að koma í veg fyrir að menntakerfið tæki á málstað Palestínumanna.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kom fram að bókinni hafi verið hafnað fyrir fimm árum en ekki lá ljóst fyrir hvers vegna.

Undanfarna mánuði hafa nokkrir ísraelskir skólar á hærra skólastigi legið undir gagnrýni fyrir að halda fram skoðunum sem væru andstæðar síonisma.

Ísraelar minnast átakanna árið 1948 sem frelsisstríðs þeirra þegar hersveitir gyðinga sigruðu fimm arabíska heri til að bjarga nýstofnuðu ríki þeirra en arabar kalla það „nakba“ sem þýðir „hörmungarnar“ þar sem að um 750 þúsund Palestínumenn þurftu að flýja heimkynni sín eða voru reknir í burtu.

Í fyrra bannaði ísraelska menntamálaráðuneytið orðið „nakba“ í skólabókum.

mbl.is

Bloggað um fréttina