Ísraelsher stöðvar för gyðinga

Báturinn leggur úr höfn í Famagusta á Kýpur á sunnudag.
Báturinn leggur úr höfn í Famagusta á Kýpur á sunnudag. Reuters

Ísraelsk herskip stöðvuðu í dag bát baráttusinna úr röðum gyðinga sem voru á leið til Gaza en þeir höfðu þá virt skipanir um að breyta stefnu sinni af vettugi. „Þeir gáfust upp vegna þess að þeir voru umkringdir,“ sagði Amjad al-Shawa, einn aðstandenda hópsins, en tíu herskip umkringdu bátinn.

Báturinn, „Irene“, sigldi undir bresku flaggi en áhöfn hans var skipað að breyta um stefnu ellegar myndi Ísraelsher ráðast til inngöngu og yfirbuga bátsverja.

Ísraelsmaðurinn Yonatan Shapira er einn aðgerðasinnanna um borð en hann var um 20 sjómílur frá Gaza er hann ræddi við AFP-fréttastofuna í dag.

Að sögn Shapira gaf Ísraelsher aðvörun um að það yrði litið á það sem lögbrot ef áhöfnin héldi því til streitu að fá að sigla til Gaza, sérstaklega fyrir þá sem hafa ísraelskt ríkisfang. Fimm Ísraelar eru um borð í Irene.

Vekur athygli

Meðal stuðningsmanna tveggja Breta úr áhöfninni eru leikarinn Stephen Fry og Marion Kozak, móðir Miliband-bræðranna, David og ED, leiðtoga breska Verkamannaflokksins, en þau eru sögð hafa komið stuðningnum á framfæri á vefsíðu hópsins.

Um borð eru 82 ára gömul kona, Reuven Moskovitz, sem lifði af helförina gegn gyðingum og Ísraelsmaðurinn Rami Elhanan en dóttir hans Smadar lét lífið í sjálfsmorðsárás Palestínumanns í Jerúsalem árið 1997.

Þá er þýsk hjúkrunarkona, breskir og bandarískir aðgerðasinnar og blaðamaður fyrir ísraelsku sjónvarpsstöðina Channel 10 með í för, auk bróður áðurnefnds Shapira.

Níu manns eru í áhöfninni. Fimm eru frá Ísrael og ...
Níu manns eru í áhöfninni. Fimm eru frá Ísrael og fjórir frá Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Reuters
mbl.is