Danir ætla að rífa hverfi innflytjenda

Lars Løkke Rasmussen.
Lars Løkke Rasmussen. Reuters

Danska ríkisstjórnin hyggst grípa til aðgerða til að stemma stigu við myndun innflytjendahverfa í landinu. Leitað verður leiða til að finna ný úrræði fyrir innflytjendur.

Búist er við að rífa þurfi meira en eitt þúsund fjölbýlishús, sem eru talin vera „samfélag í samfélaginu.“

Einnig á að auka löggæslu í þessum hverfum. Atvinnumálaráðherra Danmerkur, Inger Stoejberg, segir að það sé með öllu óásættanlegt að hverfi fyrirfinnist í Danmörku þar sem einu tengsl íbúanna við samfélagið séu bæturnar sem þeir taka við einu sinni í mánuði.

Það var forsætisráðherra landsins, Lars Løkke Rasmussen, sem bryddaði upp á þessari hugmynd og sagði að við blöstu félagsleg vandamál sem yrðu ekki leyst öðruvísi en að sundra þessum hverfum.

Rasmussen sagði að tími ótakmarkaðs umburðarlyndis gagnvart þeim sem sýna ekkert umburðarlyndi væri á enda. Hann sagði ríkisstjórnina ekki ætla að leggja lengur blessun sína yfir samfélag þar sem slökkviliðsmenn yrðu að vinna undir lögregluvernd og skemmdarverk væru unnin á skólum og uppeldisstofnunum.

mbl.is