Evrópa opni sig fyrir guði

Benedikt 16. páfi, skorar á þjóðir Evrópu að „opna sig fyrir guði“ og harmar þá útbreiddu skoðun að guð sé álitinn „óvinur frelsis.“ Þetta kom fram í ávarpi páfans í Santiago de Compostela á Spáni, en um 7 þúsund pílagrímar hlýddu á ávarp hans í dag.

„Evrópa þarf að opna sig fyrir guði, og við þurfum að koma til hans óhrædd,“ sagði páfi. „Því miður hefur sú þróun átt sér stað, einkum á 19. öld, að fólk hefur sannfærst um það að guð sé andstæðingur mannsins, og hann sé á einhvern hátt óvinur frelsis.“

Hann segir menn hafa lagt sig fram um það að þvæla „hina sönnu biblísku trú“ á guð.

„Evrópa vísinda og tækni, Evrópa siðmenningar og menningar, verður að vera Evrópa samúðar og vináttu við aðrar heimsálfur, opin fyrir hinum sanna guði.“

Páfinn lýsti sér sem „pílagríma meðal pílagríma,“ og varaði við því að skortur á fórnfýsi leiddi til hroka og misbeitingar. Hann hvatti ungt fólk til þess að tileinka sér lífsýna guðspjallanna.

„Með því að hafna sjálfselsku og skammsýni, og tileinkað ykkur hugsunarhátt Jesú, getið þið fundið fyllingu og orðið boðberar nýrrar vonar,“ sagði hann jafnframt.

Kirkjan var gríðarlega valdamikil á Spáni í einræðisherratíð Francos, en dregið hefur úr áhrifum hennar eftir að lýðræði komst á í landinu.

Kirkjan hefur sett sig upp á móti ýmsum breytingum sem gerðar hafa verið í stjórnartíð núverandi forsætisráðherra Spánar, Jose Zapatero, en samkynhneigðir geta nú gifst, hjónaskilnaðir hafa verið einfaldaðir og aðgengi að fóstureyðingum aukið.

Benedikt 16.
Benedikt 16. MAX ROSSI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert